Ítrekun á fyrirspurn til Ritstjórnar Vísis vegna fréttar sem birtist 2. maí 2004 í Fréttablaðinu.

Sendi eftirfarandi á ritstjórn Vísis í dag. Sjá meðfylgjandi grein frá 2. maí 2004. Kynlíf Geimfara?

Góðan dag.

Þann 2. maí 2004 birtist í fréttablaðinu frétt um komandi geimferð sem NASA var að skipuleggja til mars. Fréttin kom skemmtilega á óvart fyrir þær sakir að skv. heimildum fréttamanns átti slík ferð að eiga sér stað í janúar 2005.

Ég hafði samband í síma þann sama dag um lagði inn fyrirspurn um hvaðan slíkar upplýsingar komu. Ég fékk samband við ritstjóra sem bauðst til að hafa samband við mig með upplýsingar um það síðar þann sama dag en það hefur líklega gleymst.

Sléttum fjórum árum síðar hafði ég aftur samband í síma og ítrekaði fyrirspurn mína. Aftur fékk ég samband við ritstjóra, sem að lýsti yfir undrun sinni og ánægju með þrautseigju mína og lofaði að skoða málið og láta mig vita.

Öðrum fjórum árum síðar ýtti ég enn eftir svari og uppskar hláturrokur miklar og loforð um að fá upplýsingar um hvaða heimildir voru að baki þessari stórfurðulegu frétt. Það er varla að spyrja að því að ég fékk auðvitað engin svör.

En nú er nóg komið. Ég hef núna beðið rólegur í næstum 13 ár og krefst svara. Hvaðan komu þessar upplýsingar? Vissi fréttamaður eitthvað sem að við hin vitum ekki? Hefur leynileg ferð til mars verið þögguð niður í sögubókunum?

Ég efa það stórlega, en ýti engu að síður á eftir því að fá svör við upprunalegri fyrirspurn minni.

Með bestu kveðju,

Þórgnýr Thoroddsen, varaborgarfulltrúi Pírata.