Kynjaðar fjárhagsáætlanir

Mér þykir stundum erfitt að sjá Píratavinkilinn í vinnu minni sem fyrsti varaborgarfulltrúi Pírata í Reykjavík. Þá er ágætt að staldra við og fylgjast með því sem er í gangi með það markmið eitt að leiðarljósi, að finna Píratavinkil. Í dag fékk ég smá spark í rassinn þegar ég valdi að verja stefnu borgarinnar um kynjaða fjárhagsáætlun, en nú er einnig verið að skoða hvernig fjárútlát nýtast jaðarhópum.

Stutta og einfalda skýringin er að kynjuð fjárhagsáætlun snúist um að svara því hvernig tiltekin fjárútlát nýtast kynjunum. Þá mætti t.d. búa til upplýsingar um að hvaða marki bygging nýrrar fótboltastúku nýtist stelpum, hvernig hún nýtist strákum og hvernig hún nýtist öðrum kynjum. Þessum upplýsingum er ekki ætlað að vera neinn dómur á réttmæti fjárútlátanna. Stundum er góð skýring á því að fjárútlátin nýtist einu kyni fremur en öðrum, en stundum er gott að velta því fyrir sér hvort að hægt hefði verið að nýta peningana betur til handa öllum kynjum, og breyta þá áætlunum ef hægt er, eða gera betur næst. Sömu gleraugu er hægt að setja upp varðandi jaðarhópa hverskonar, eins og núna er verið að gera, og vafalaust á margan annan hátt.

Það rann upp fyrir mér þegar ég útskýrði þetta að aukið magn upplýsinga, hvers kyns sem þær eru, auka auðvitað kröfuna á stjórnmálamenn um að færa fram réttlætingar og röksemdir fyrir fjárútlátum. Þessi gögn eiga vitaskuld að vera opin og aðgengileg og ættu að nýtast sem tól fyrir almenning til að beita stjórnmálamenn, og kerfinu almennt, málefnalegu aðhaldi.