Sataníski stjórnmálamaðurinn

Sataníski stjórnmálamaðurinn

Baphomet

Í dag birtist á Facebook skjáskot af Facebooksíðu minni þar sem í borðanum sést skýrt og greinilega í Baphomet og Péturskrossinn. Augljóslega urðu sú hugrenningatengsl til, að ég væri Satanisti.
Stutta svarið við þessu er: Nei. Ég er ekki djöfladýrkandi, enda dýrka ég engin goð. – Langa svarið er: Ég er mikill aðdáandi Counter-Culture, eða svokallaðrar andstöðumenningar.
Andstöðumenning er í stuttu máli hreyfing eða hugmyndafræði sem stendur gegn ríkjandi viðhorfum á hverjum tíma og ögrar þeim og hristir upp í þeim. Hipparnir voru andstöðumenning, #Freethenipple er andstöðumenning, pönkarar eru það og anarkistar hverskonar, hinseginhópar hafa löngum beitt þesskonar hugmyndafræði og það sama á við um trúfrelsishreyfingar hverskonar. Þessar hreyfingar heilla mig allar.
Píratar eru enn fremur andstöðumenningarhópur, enda er það hreinlega innprentað í Píratakóðann okkar og grunnstefnu að rýna allt. Hefðir og venjur gera hluti ekki sjálfkrafa rétta.
Í síðastliðnum kosningum vorum við Halldór Auðar úthrópaðir stefnu- og ábyrgðarlausir tómhyggjutittir (Níhílistar). Þetta áttu að vera úthróp, niðurlægjandi jafnvel, en við tókum úthrópin og eignuðum okkur titilinn. Ég gekk jafnvel svo langt að reyna að fá mig skráðan sem Tómhyggjutitt í símaskránni í kjölfar þessa, en ég fékk það ekki í gegn. Þess í stað er ég í dag skráður sem „Pjáturpaunkari“, sem er augljóslega gildari starfstitill.
Satanismi er í grunninn líka andstöðumenningarlegt fyrirbæri. Í samfélögum þar sem kristin gildi og viðmið hafa stýrt lögum og hefðum hefur Satan ávallt staðið fyrir þá sem synda á móti straumnum. Baphomet varð einhvernveginn að táknmynd satanisma, en tilvísunin þar er fyrst og fremst frelsi einstaklingsins, geitin, þessi sem að fylgir ekki hjörðinni. Með daðri mínu við þetta myndmál er ég ekki að segja að kristin gildi séu í sjálfu sér slæm heldur að þau eru ekki hafin yfir gagnrýni frekar en annað.
Það var því til gamans gert að setja þennan borða upp sem tilvísun í andstöðumenninguna sem ég held svo mikið upp á. Ég hafði þá þegar verið úthrópaður tómhyggjutittur, svo að lengra var ekki hægt að fara nema með því að vitna í myndmál Satanista.